top of page

SAMSTARFSVETTVANGUR

ÍSLENSKRA  JARÐVANGA

Rekja má umræðu um jarðvanga á Íslandi (Icelandic Geoparks) a.m.k. til 2002 þegar Landvernd og Ferðamálasamtök Suðurnesja kynntu hugmyndir um eldfjallagarð eða GeoPark á svæðinu frá Þingvallavatni að Reykjanesi. Í desember 2003 hélt Patrick McKeever frá Tengslaneti evrópskra jarðvanga (European Geoparks Network) erindi á fundi hjá Umhverfisstofnun þar sem hann kynnti hugtakið Geopark og hvatti Íslendinga til dáða á því sviði. Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fylgdi málinu eftir á fundi í Keflavík í mars 2004 þegar rætt var um samspil náttúruverndar og orkuvinnslu, og 2007 stóð Landvernd fyrir ráðstefnu um hugmyndir að eldfjallagarði á Reykjanesi.

Það var ekki fyrr en með átaksverkefni Háskólafélags Suðurlands 2008-2009 um Net þekkingar frá Markarfljóti að Skeiðarársandi að málefnið komst á rekspöl. Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur og þáverandi forstöðumaður Surtseyjarstofu vann skýrslu fyrir átaksverkefnið þar sem hún kynnti þá möguleika sem jarðminjagarður á svæðinu kynni að fela í sér fyrir byggðaþróun á svæðinu. Síðan var ákveðið að bjóða fyrrnefndum Patrick McKeever á svæðið og haldnir voru kynningarfundir með honum í öllum þremur sveitarfélögunum; Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi. Niðurstaðan var sú að ákveðið var að stofna sérstakt félag um verkefnð. Haldin var nafnasamkeppni um heiti, og varð Katla fyrir valinu. Þá varð einnig til nýyrðið jarðvangur fyrir hugtakið Geopark og mun Friðrik Erlingsson eiga heiðurinn af því.

Katla jarðvangur ses. var stofnaður formlega 19. nóvember 2010, síðar í mánuðinum var gengið frá umsókn að Tengslaneti evrópskra og hnattrænna jarðvanga, og að undangenginni úttekt sumarið 2011 var umsóknin formlega samþykkt á haustfundi evrópska netverksins í Langesund í Noregi í september 2011.

Reykjanes jarðvangur ses. var síðan stofnaður 13. nóvember 2012 og síðar í mánuðinum var gengið frá umsókn jarðvangsins í fyrrnefnd Tengslanet jarðvanga. Að undangenginni úttekt sumarið 2013 fékk jarðvangurinn tvö ár til að uppfylla tiltekin skilyrði og tveimur árum síðar var hann formlega tekinn inn í netverkið.

Ýmis önnur svæði á Íslandi hafa velt fyrir sér stofnun jarðvangs, m.a. á Snæfellsnesi, á Norðausturlandi og á Austfjörðum, en í efri byggðum Borgarfjarðar, í nágrenni Húsafells, varð Saga jarðvangur til 2013 sem frjáls félagasamtök og þá um sumarið heimsótti Patrick McKeever svæðið. Haustið 2015 var formlega gengið frá umsókn í fyrrnefnt tengslanet jarðvanga en umsóknin fékk ekki brautargengi. Í janúar 2017 var Saga jarðvangur síðan formlega stofnaður sem sjálfseignarstofnun. Þannig má segja að þrír íslenskir jarðvangar hafi verið stofnaðir.

Í nóvember 2020 varð síðan þessi heimasíða til, þ.e. geopark.is, og tekið var upp heitið Íslandsnefnd fyrir samráðsnefnd eða samstarfsvettvang íslenskra jarðvanga.

Gerð vefsíðunnar styrkt af:

bottom of page