top of page
Reykjanes jarðvangur

Reykjanes UNESCO Global Geopark (Reykjanes jarðvangur) kynnir einstaka náttúru svæðisins og hvernig það hefur haft áhrif á samfélag og menningu frá upphafi búsetu. Svæðið skartar einstökum jarðminjum á heimsvísu sem segja sögu:

  • Mið-Atlantshafshryggisins sem kemur á land á Reykjanestá og gliðnun flekaskila Norður Ameríkuflekans og Evrasíuflekans og afleiðingar flekaskilanna.

  • Jarðhræringa, þar sem fjögur ílöng eldstöðva- og sprungukerfi skera skagann, frá SV til NA, með opnum sprungum, siggengjum, háhitasvæðum og gossprungum, með gígum úr gjalli og hraunkleprum. Margar, misstórar hraundyngjur hafa myndast í kerfunum, sumar úr frumstæðri kviku úr möttli jarðar (pikrítí). Eldsumbrot eru þekkt í þremur vestustu eldstöðvakerfunum, í löngum hrinum, á 10/11. öld, 1151-1180 og 1210-1240.

  • Þróun svæðis frá ísöld. Á skaganum er að finna mörg móbergsfjöll og -fell frá jökulskeiðum á síðari hluta kvarteru ísaldarinnar, og enn fremur hraun og eldstöðvar af hlýskeiðum, einkum nútíma (sl. 11.500 ár).

  • Samspil landslags og samfélags. Búsetja hefur verið á Reykjanesi frá landnámi, en landslagið og krefjandi aðstæður hafa mótað samfélagið og menningu þess.

Reykjanes jarðvangur nær yfir allt land sveitarfélaganna Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Voga og Suðurnesjabæjar. Jarðvangurinn er samstarfsvettvangur sem byggir á því að nýta sérstöðu svæðisins, þ.e. merkilega jarðfræðiarfleið og einstaka jarðsögu, til verðmætasköpunar. Í tilfelli Reykjanes jarðvangs er það Atlantshafshryggurinn, flekaskilin og afleiðingar þeirra. UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi Reykjanes sem UNESCO Global Geopark árið 2015. Reykjanesskaginn er ungur hluti Íslands, um 2.000 m2 að flatarmáli. Hann er þurrlendishluti Mið- Atlantshafshryggjarnins, mjög eldvirkur eins og neðansjávarhlutinn. Út frá honum rekur tvær jarðskorpuplötur (-fleka) í gagnstæðar áttir, að meðaltali 2,0-2,5 cm á ári.

Reykjanes UNESCO Global Geopark er 829 ferkílómetrar að flatarmáli, 0,85% af Íslandi. Þar rís Mið-Atlantshafshryggurinn úr sæ. Eldstöðvar móta skagann auk þeirra fyrirbæra sem henni fylgja, allt frá jarðlögum af jökulskeiði til ungra hrauna. Á Reykjanesi er hægt að finna háhitasvæði með tilheyrandi hverum og gufustrókum, hundruð mismunandi gíga, hella, hraunbreiða, kletta og svartar strendur. Ekki má gleyma að minnast á heimsþekkt fuglabjörg sem dýralífsunnendur mega alls ekki láta fram hjá sér fara.

bottom of page