top of page
Katla jarðvangur

Katla UNESCO Global Geopark (Katla jarðvangur) kynnir náttúru og búsetu á einu mesta náttúruhamfarasvæði Evrópu og skartar einstökum jarðminjum á heimsvísu sem segja sögu virkra afla:

  • Gliðnun Atlantshafshryggjarins sem sést á legu og mótun Eldgjár, Lakagígum og Fögrufjöllum/ Grænafjallgarðs við Langasjó.

  • Kvikuuppstreymi frá heitum reit fæðir megineldstöðvar svæðisins: Torfajökul, Kötlu, Eyjafjallajökul, Grímsvötn og Bárðarbungu. Frá eldstöðvakerfum Kötlu og Grímsvatna hafa runnið stærstu sögulegu hraun og þar má sjá víðfeðmustu gervigígasvæði í heimi.

  • Samspil jökla og megineldstöðva ríkir á svæðinu með beljandi jökulám og sandflæmum, tíðum öskugosum og hamfarahlaupum af völdum jarðvarma og eldgosa undir jökli.

  • Ummerki um hlýnun jarðar má sjá í Kötlu UNESCO jarðvangi á hraðri bráðnun jökla og harðnandi lífsbaráttu sjávarfugla og unga þeirra við breytt fæðuskilyrði í sjónum.

  • Búseta hefur verið óslitin hér frá landnámi þrátt fyrir krefjandi aðstæður og skakkaföll. Náttúrutengd menningarsagan leynist víða, bæði í hefðum og minjum og víða innan jarðvangsins má heimsækja manngerða hella sem jafnframt eru elstu búsetuminjar á landinu.

Katla UNESCO Global Geopark er fyrsti jarðvangur Íslands, stofnaður í nóvember 2010. Tæpu ári seinna, í september 2011, fékk hann aðild að samtökum evrópskra jarðvanga (EGN: European Geoparks Network) og tengdist svo alþjóðlegu neti jarðvanga (GGN: Global Geoparks Network) eftir staðfestingu og innleiðingu þess innan UNESCO árið 2015.  Jarðvangurinn þekur um 9% Íslands, 9.542 km2, og nær yfir land þriggja sveitarfélaga, Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra.  Um 3.200 manns búa innan marka jarðvangsins, en voru um 2.700 við stofnun hans.  Nyrsti hluti jarðvangsins nær inná Vatnajökulsþjóðgarð og í suðri liggur svartur sandur Mýrdalsins og Suðurstrandarinnar. Það má með sanni segja að segja að Katla jarðvangur sé með allra fjölbreyttustu og jarðfræðilega mest spennandi svæðum heimsins hvort heldur sem litið er til milljóna ára landslagsmyndana, nýmyndaðs hrauns Eyjafjallajökuls frá því árið 2010, jöklanna sem krýna flest okkar eldfjöll eða beljandi jökulvatnsins sem frá þeim rennur. Það finnst vart sá staður á jörðinni þar sem andstæðurnar eldur og ís eiga eins vel saman og kraftur jarðarinnar er jafn áþreifanlegur.

Allt frá því að Katla jarðvangur varð meðlimur í EGN hefur mikið starf verið unnið í tengslum við jarðfræði og menningu svæðisins. Meðal annars er búið að bæta aðgengi að völdum náttúruperlum og aukið aðgengi ferðamanna að fræðsluefni og staðbundinni fræðslu meðal annars í gegnum námskeiðið Staðarleiðsögn í jarðvangi. Einnig tekur jarðvangurinn þátt í kennslu í jarðvangsskólunum innan jarðvangsins þar sem unnið er með einkenni, sögu og jarðfræði nærumhverfisins til að efla umhverfisvitund og umhverfislæsi nemenda.

bottom of page