top of page

Fundur 18.12. 2023

Fundur á Teams í Íslandsnefnd hnattrænna jarðvanga 18. desember 2023

Mætt eru:

Daníel Einarsson Reykanes jarðvangi

Fanney Ásgeirsdóttir Vatnajökulsþjóðgarði

Guðbjörg Gunnarsdóttir Umhverfisstofnun

Guðríður Þorbjarnardóttir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu

Hugrún Geirsdóttir Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Jóhannes M. Jóhannesson Kötlu jarðvangi

Lovísa Ásbjörnsdóttir Náttúrufræðistofnun

Rannveig Ólafsdóttir Félagi landfræðinga/Ferðamálafræði og landfræði HÍ

Sigurður Sigursveinsson Háskólafélagi Suðurlands

Uggi Ævarsson Minjastofnun

Þuríður Aradóttir Braun Reykjanes jarðvangi

 

Forföll hjá Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Íslensku UNESCO nefndinni, Jarðfræðafélagi Íslands, Landvernd, Samstarfsnefnd opinberu háskólanna og Þingvallaþjóðgarði.

 

Sigurður formaður setti fund kl. 13:30 og bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega Hugrúnu Geirsdóttur nýjan fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Gengið var til boðaðrar dagskrár sem send hafði verið með fundarboði 5. desember:


1.       Staða jarðvanganna í stjórnkerfinu, sbr. erindi nefndarinnar til þriggja ráðherra dags. 28.2. 2023

Sigurður greindi frá því að engin forrmleg viðbrögð hefðu borist úr ráðuneytunum. Samþykkt að ítreka fyrra erindi með beiðni um fund. Fulltrúar Kötlu jarðvangs (oddviti og sveitarstjóri Rangárþings eystra auk Sigurðar stjórnarmanns) hafa átt fjarfund með Guðlaugi Þór umhverfisráðherra, og annar fundur var með Lilju Alfreðsdóttur menningarráðherra (sveitarstjóri Mýrdalshrepps og stjórnarmaður úr Skaftárhreppi). Áskoranir ýmissa aðila til sveitarstjórna í Kötlu jarðvangi höfðu jákvæð áhrif og stefna þau nú að áframhaldandi starfsemi jarðvangsins. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa einnig átt í viðræðum við ráðuneyti um málefni Reykjanes jarðvangs.


2.       Fréttir af starfi jarðvanganna

Daníel greindi frá því helsta, en eldgos og jarðskjálftar hafa sett svip sinn á svæðið. Stjórnin hefur unnið að stefnumótun til næstu þriggja ára. Þar ber hæst áherslu á fræðslumál, kynningarmál og uppbyggingu áfangastaða. Stefnt að því að allir skólar á Reykjanesi verði UNESCO skólar. Sótt var um uppbyggingu fjögurra áfangastaða í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, og unnið hefur verið að nýrri gestastofu í Grindavík með áherslu á almannavarnir og viðbragðsaðila/björgunarsveitir.  Fyrr í mánuðinum bárust þær fréttir af fundi UNESCO Global Geoparks Council að Reykjanes jarðvangur hefði fengið græna spjaldið við úttekt fyrr á árinu, þ.e. áframhaldandi vottun til næstu fjögurra ára.

Jóhannes greindi frá starfsemi Kötlu jarðvangs en síðan í vor er hann eini starfsmaður jarðvangsins. Gerð nýs áfangastaðar við Þorvaldseyri er á lokametrunum, 16 myndaskilti ásamt sýnishornum af bergtegundum í umhverfinu. Áfram hefur verið unnið í Víkurfjöruverkefninu en þar er um að ræða rannsóknarverkefni í samvinnu við skólann í Vík og Kötlusetur. Jarðvangurinn hefur séð um valáfanga í skólanum í þessu sambandi og á komandi vorönn verður áhersla á mælingar á Höfðabrekkujökli, en Múlakvísl hefur brotið talsvert úr honum undanfarið. Ný heimasíða er komin í loftið og er umræða um að hún verði mögulega sameiginleg visit síða fyrir svæðið en í dag eru þær þrjár, ein í hverju sveitarfélagi. Stefnt er að því að Jóhannes heimsæki afþreyingarfyrirtæki í jarðferðamennsku á svæðinu og haldi námskeið í jarðfræði fyrir starfsmenn viðkomandi fyrirtækja.

Í umræðum kom fram að auk ferðamennskunnar þyrftu jarðvangarnir að leggja áherslu á sjálfbærni og ábyrga umgengni við náttúru svæðisins, auk þess að tengjast íbúum og atvinnulífi sterkari böndum.


3.       17. evrópska jarðvangsráðstefnan haldin í Reykjanes jarðvangi 2.–4. október 2024.

Þuríður og Daníel greindu frá undirbúningi ráðstefnunnar en gert er ráð fyrir 400-600 gestum. Tveir ráðstefnudagar með fjölda málstofa með stuttum kynningum á verkefnum einstakra jarðvanga, auk eins ferðadags um Reykjanesið, en ráðstefnan verður 2-4. október 2024. Markmið jarðvangsins með ráðstefnunni er fyrst og fremst að vekja athygli á starfsemi jarðvanga og styrkja ímynd þeirra, inn á við og út á við. Fengist hefur 10 mkr styrkur frá ríkinu til að styðja við ráðstefnuna. Í byrjun næsta árs verður ráðstefnan kynnt nánar.

Guðríður Þorbjarnardóttir er nú að láta af störfum í umhverfis-, orku- og loftslagsráðneytinu, og Guðbjörg Gunnarsdóttir hjá Umhverfisstofnun. Þær hafa báðar setið í Íslandsnefndinni frá upphafi og voru þeim færðar þakkir fyrir mikilsvert framlag þeirra í því sambandi. Dagný Arnarsdóttir tekur við af Guðríði í Íslandsnefndinni og René Biasone tekur við af Guðbjörgu.

Stefnt er að næsta fundi í nefndinni á útmánuðum.


Fleira ekki, fundi slitið kl. 14:25.

Comments


bottom of page