top of page

Fundur 16.5. 2024

Fundur á Teams í Íslandsnefnd hnattrænna jarðvanga 16. maí 2024

 

Mætt eru:

Áslaug Dóra Erlendsdóttir Íslenska UNESCO nefndin

Björg Eva Erlendsdóttir Landvernd

Dagný Arnarsdóttir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

Daníel Einarsson Reykjanes jarðvangi

Jóhannes M. Jóhannesson Kötlu jarðvangi

Lovísa Ásbjörnsdóttir Náttúrufræðistofnun

René Biasone Umhverfisstofnun

Sigurður Sigursveinsson Háskólafélagi Suðurlands

Sæunn Stefánsdóttir Samstarfsnefnd opinberu háskólanna/UNESCO nefndin

Þuríður Aradóttir Braun Reykjanes jarðvangi

 

Forföll hjá Ferðamálastofu, Félagi landfræðinga/Ferðamálafræði HÍ, Íslandsstofu, Jarðfræðafélagi Íslands, Minjastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vatnajökulsþjóðgarði og Þingvallaþjóðgarði.

 

Sigurður formaður setti fund kl. 13:30 og bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega þrjá nýja fulltrúa, þau Björgu Evu Erlendsdóttir frá Landvernd, Dagný Arnarsdóttur frá Umhverfis, - orku- og loftslagsráðuneytinu og René Biasone frá Umhverfisstofnun. Fundarmenn kynntu sig í upphafi fundar en síðan var gengið til boðaðrar dagskrár sem send hafði verið með fundarboði 23. apríl:


1.       EGN ráðstefnan á Reykjanesi 2. – 4. október 2024

 

Daníel greindi frá undirbúningi ráðstefnunnar. Innritun er hafin, búist við ca 400 gestum, nú þegar munu um 150 hafa skráð sig. Markmið jarðvangsins með því að taka að sér þetta risavaxna verkefni var tvíþætt; annars vegar að taka þannig mjög virkan þátt í evrópska netverkinu, en hins vegar að nota tækifærið og kynna jarðvanga og starfsemi þeirra hér innanlands, bæði fyrir stjórnkerfinu og almenningi. Gert er ráð fyrir að Íslandsnefndin fái boð á ráðstefnuna og væntir jarðvangurinn góðs samstarfs við hana í undirbúningi ráðstefnunnar. Fyrstu tveir dagar ráðstefnunnar eru að mestu helgaðir samtíma málstofum auk þess sem GGN (Global Geoparks Network) verður með dagskrárlið í tilefni 20 ára afmælis GGN. Gert er ráð fyrir ferð um Reykjanes þriðja ráðstefnudaginn en dagskrá þess dags mun ráðast af stöðu gosmála þegar þar að kemur.

 

Daníel leitaði eftir hugmyndum varðandi kynningu á ráðstefnunni innanlands. Í umræðum komu m.a. fram hugmyndir um að senda kynningarefni á stofnanir, fagaðila og jafnvel háskólanemendur. Einnig að leitast við að koma sér á framfæri í stærri miðlum og flétta þar inn umfjöllun um starfsemi jarðvangsins að öðru leyti. Þá kom fram að í byrjun september verði norrænn UNESCO fundur á Hótel Örk og gott væri að fá kynningu þar á ráðstefnunni. Þá var rætt um mikilvægi þess að fá hátt settan aðila til að flytja ávarp, t.d. ráðherra eða jafnvel nýkjörinn forseta lýðveldisins.

 

Heimasíða ráðstefnunnar er www.egn2024.is 


2.       Fréttir af starfi jarðvanganna

 

Jóhannes greindi frá málum á dagskrá Kötlu jarðvangs undanfarið. Verið er að auglýsa eftir verkefnisstjóra sem leiða á verkefni um vísindaferðamennsku. Jarðvangurinn hefur sinnt kennslu og rannsóknarverkefnum í Víkurskóla undanfarin misseri en gert er ráð fyrir að hann komi að kennslu í öllum þremur skólum jarðvangsins næsta vetur. Svokallað Víkurfjöruverkefni í samvinnu jarðvangsins og Víkurskóla hlaut Menntaverðlaun Suðurlands 2023. Nú stendur yfir rannsóknarverkefni nemenda í Víkurskóla undir stjórn jarðvangsins á rofi Höfðabrekkujökuls, en hann myndaðist í tveimur Kötlugosum á 18. öld, og má segja að síðan hafi hann að nokkru virkað sem vörn fyrir Víkurþorp gagnvart Kötluhlaupum. Nemendur munu á næstunni kynna niðurstöðurnar fyrir sveitarstjórn Mýrdalshrepps. Þá hlaut jarðvangurinn nýlega styrk úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar til að meta umfang strandbreytinga frá Reynisfjalli að Kúðafljóti. Loks má nefna að nú á næstunni verður vígður nýr fræðslustígur við Þorvaldseyri þar sem verða 16 fræðsluskilti um gang gossins í Eyjafjallajökli 2010 ásamt 16 sýnishornum af bergtegundum á svæðinu.

 

Daníel sagði að þrátt fyrir mikla vinnu í sambandi við ráðstefnuna væru ýmis verkefni í deiglunni þó svo sum þeirra hefðu frestast vegna eldgosanna undanfarið.  Búið er að ráða verkefnastjóra sem er að undirbúa aukið samstarf jarðvangsins við skólana á svæðinu.


3.       Samkeppni í tilefni 20 ára afmælis Global Geoparks Network (GGN)

 

Sigurður gerði grein fyrir málinu.  Gerð hefur verið sérstök vefsíða, www.ggn20anniversary.com sem þýdd hefur verið á fjölmörg tungumál, þar á meðal íslensku. Samkeppnin er í þremur hlutum;

·       Myndaleiðangur um jörðina (Earth Visual Odyssey) sem er myndasamkeppni, öllum opin, sem er tileinkuð jörðinni og íbúum hennar.

·       Sögur steinanna (Stone´s Stories). Um er að ræða persónulega myndasögu, t.d. um steina, steingervinga, steindir eða landslag sem hluta af stærri sögu jarðarinnar. Samkeppnin er opin öllum íbúum jarðvanganna.

·       Skilningarvitin fimm í jarðvanginum (The 5 Senses of your Geopark). Um er að ræða ritgerðarsamkeppni ungmenna í jarðvöngunum á aldrinum 12-18 ára.

Skilafrestur er til 31. desember 2024.

 

Í umræðum kom m.a. fram að kynna mætti samkeppnina í gegnum UNESCO skólana sem haldið er utan um af hálfu Félags Sameinuðu þjóðanna. Einnig á vegum íslensku UNESCO nefndarinnar, og einnig í tengslum við ráðstefnuna í haust, og í skólum jarðvanganna tveggja.

Einnig mætti tengja kynningarstarfið yfir á næsta ár þegar EGN verður 25 ára og staðarsrkráin, UNESCO Global Geoparks, 10 ára.

4.       Önnur mál

 

Engin mál undir þessum lið.

 

Fleira ekki, fundi slitið kl. 14:20.Comments


bottom of page