top of page

Nýr fulltrúi Íslands í GGN-AC

  • sigurdur5
  • 21 minutes ago
  • 2 min read

Íslandsdeild Global Geoparks Network (GGN) hefur samþykkt að Þuríður Aradóttir Braun, fulltrúi Reykjanes UNESCO Global Geopark, taki við sem tengiliður Íslands í ráðgjafaráði GGN (GGN-AC). Hún tekur við af Sigurði Sigurðsveinssyni frá Kötlu jarðvangi, sem hefur setið í ráðinu síðastliðin tíu ár og lagt ómetanlegt framlag til þróunar jarðvanga, bæði hér á landi og á heimsvísu.

 

Ráðgjafaráð GGN (GGN Advisory Committee) er formlegt ráðgefandi stjórnvald netsins og samanstendur af formönnum (eða tilnefndum fulltrúum) landsdeilda jarðvanga og aðildarsamtaka. Ráðið veitir framkvæmdastjórn og aðalfundi GGN ráðgjöf um stefnu, starfsáætlanir, verklag og fjárhag netsins, auk þess sem það getur lagt til breytingar á samþykktum GGN.

 

Nýr fulltrúi Íslands

Þuríður hefur starfað að þróun og uppbyggingu íslenskra jarðvanga í meira en áratug og þekkir vel til innviða og starfsemi bæði íslenska og alþjóðlega netkerfisins. Hún kom að stofnun Kötlu jarðvangs árið 2010 fyrir hönd Rangárþings eystra, í nánu samstarfi við Sigurð sem vann verkefnið fyrir Háskólafélag Suðurlands. Þuríður starfaði að verkefnum jarðvangsins til ársins 2012 og hóf síðar störf hjá Markaðsstofu Reykjaness þar sem hún hefur frá 2013 tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum Reykjanes UNESCO Global Geopark.

 

Þuríður hefur verið fastafulltrúi Reykjanes jarðvangs í European Geoparks Network frá staðfestingu jarðvangsins sem UNESCO jarðvangur árið 2015 og sat í ráðgjafaráði EGN (EGN-AC) á árunum 2022–2024. Í dag er hún annar tveggja tengiliða Reykjanes jarðvangs í evrópska netverkinu (EGN Coordination Committee, EGN-CC).

 

Þakkir til Sigurðar Sigursveinssonar

Sigurður hefur verið fulltrúi Íslands í ráðgjafaráði GGN frá stofnun ráðsins árið 2016 og hefur á þeim tíma lagt afar mikið af mörkum til þróunar og framgangs jarðvanga, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi.

Það er þó mikilvægt að undirstrika að Sigurður er alls ekki að hætta störfum í þágu jarðvanganna. Hann heldur áfram sem annar tveggja fastafulltrúa Kötlu jarðvangs í EGN-CC og heldur áfram að vinna fyrir íslenska jarðvanga af sama krafti og áður. Þá mun hann áfram sinna alþjóðlegum úttektum á jarðvöngum fyrir UNESCO, sem hann hefur gert af mikilli fagmennsku undanfarin ár.

Íslandsdeild GGN vill þakka Sigurði fyrir óeigingjarnt og ómetanlegt framlag í þessu tiltekna hlutverki – og fyrir áframhaldandi, mikilvægt starf í þágu íslenskra jarðvanga.


Fulltrúar Íslands á 11. alþjóðaráðstefnu hnattrænna jarðvanga í Chile í september 2025. Frá vinstri Ólafur Jón Arnbjörnsson, Sigurður Sigursveinsson, Arnbjörn Ólafsson, Þuríður H. Aradóttir Braun og Daníel Einarsson
Fulltrúar Íslands á 11. alþjóðaráðstefnu hnattrænna jarðvanga í Chile í september 2025. Frá vinstri Ólafur Jón Arnbjörnsson, Sigurður Sigursveinsson, Arnbjörn Ólafsson, Þuríður H. Aradóttir Braun og Daníel Einarsson

Comments


bottom of page