Fundur í Íslandsnefndinni 11.12. 2025
- sigurdur5
- 6 hours ago
- 4 min read

Fundur 11.12. 2025
Fundur á Teams í Íslandsnefnd hnattrænna jarðvanga 11. desember 2025
Mætt eru:
Áslaug Dóra Erlendsdóttir Íslenska UNESCO nefndin
Björg Eva Erlendsdóttir Landvernd
Dagný Arnarsdóttir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti
Daníel Einarsson Reykjanes jarðvangi
Fanney Ásgeirsdóttir Náttúrufræðistofnun
Jóhannes M. Jóhannesson Kötlu jarðvangi
Lovísa Ásbjörnsdóttir Náttúruverndarstofnun
Rannveig Ólafsdóttir Félagi landfræðinga/Ferðamálafræði HÍ
René Biasone Umhverfisstofnun/Náttúruverndarstofnun
Sigrún Svava Ólafsdóttir Reykjanes jarðvangi
Sigurður Sigursveinsson Háskólafélagi Suðurlands
Sæunn Stefánsdóttir Samstarfsnefnd opinberu háskólanna
Uggi Ævarsson Minjastofnun
Þuríður H. Aradóttir Reykjanes jarðvangi
Forföll hjá Jarðfræðafélaginu, Þingvallaþjóðgarði, Ferðamálastofu og Íslandsstofu.
Sigurður formaður setti fund kl. 10 og bauð fundarmenn velkomna en síðan var gengið til boðaðrar dagskrár sem send hafði verið með tölvupósti 20. nóvember:
1. Innlegg um starfsemi jarðvanganna hvors um sig
Daníel kynnti Sigrúnu Svövu Ólafsdóttur sem hefur verið að vinna sem fræðslufulltrúi jarðvangsins undanfarin misseri í samvinnu við fyrirtækið Geocamp. Hún hefur verið að heimsækja leikskóla og grunnskóla á svæðinu. Unnið að þvi að skólar á Reykjanesi gerist UNESCO skólar, þrír hafa verið samþykktir, tveir í umsóknarferli og fleiri á döfinni. Samstarfsfundir haldnir milli skóla á svæðinu, þvert á skólastig. Skólabúðir í deiglunni í febrúar næstkomandi í tengslum við almyrkva á sólu næsta haust. Jarðvangurinn kominn með styrk til að vinna að þessu verkefni. Annað verkefni er Gárur á Reykjanesi sem felst í að kortleggja möguleika til útikennslu í nágrenni skólanna. Áhersla á þverfaglega nálgun. Í haust var gerð tilraun með sjálfbærniviku (matarsóun, hringrásarhagkerfið, flokkun, endurnýtingu, nægjusemi, auðlindir, samgöngur og fleira) í samvinnu við sveitarfélögin. Verður endurtekið í nóvember 2026. Komin með Erasmus plus styrk fyrir kennaraferðir, öðru sinni. Stefnt að því að fara með 16 kennara til Danmerkur á næsta ári og e.t.v. Krítar.
Daníel sagði frá tilurð þessara áherslna, byggir á stefnumörkun stjórnar 2023. Áður mjög takmörkuð tengsl jarðvangsins við skóla, en nú í lykilhlutverki í samstarfi skóla á Reykjanesi.
Áslaug Dóra og René lýstu sérstakri ánægju með þessa þróun á Reykjanesi. Ný Náttúruverndarstofnun hefur áhuga á samstarfi varðandi fræðslu og skólahópa, t.d. Eldborg undir Geitahlíð. Áslaug Dóra velti upp möguleikum á samstarfi jarðvanganna við Svæðisgarðinn á Snæfellsnesi.
Jóhannes sagði frá verkefnum Kötlu jarðvangs. Jákvæð fjögurra ára úttekt i sumar sem leiddi til áframhaldandi vottunar til næstu fjögurra ára. Í síðustu viku fékk jarðvangurinn Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2025. Skilgreint samstarf er nú komið á um mismunandi rannsóknarverkefni í nærumhverfi grunnskólanna þriggja í jarðvanginum.
Kynning Jóhannesar fylgir þessari fundargerð.
Uggi lýsti ánægju með aukna áherslu á rannsóknir og vísindi. Fleiri nefndarmenn tóku undir þetta, og bentu á að áhugasvert væri að sjá ólík verkefni í nærumhverfi skólanna.
2. Stofnun Íslandsdeildar GGN
Sigurður sagði frá tilurð Íslandsdeildarinnar. 2023 samþykkti GGN (Global Geoparks Network) að beina því til jarðvanga að stofnuð yrði sérstök félagsdeild GGN í hverju landi, þar sem einungis jarðvangarnir sjálfir ættu aðild (auk einstaklingsaðildar þarlendra sem hefðu nú þegar einstaklingsaðild að GGN. Fyrr á árinu var gengið frá stofnun Íslandsdeildarinnar og er Daníel Einarsson hjá Reykjanes jarðvangi formaður Íslandsdeildarinnar. Samþykktir deildarinnar fylgja þessari fundargerð.
.
3. Fundir og starfsemi í netverkinu (EGN-CC í mars, International Conference on UNESCO Global Geoparks í Chile í september)
Þuríður H. Aradóttir sagði frá skyldum jarðvangann í erlendu samstarfi, kynning hennar fylgir þessari fundargerð. Rannveig velti því upp hvort reynt hefði verið að fá almenning í jarðvöngunum á ráðstefnur netverksins. Sigurður greindi frá því að það hefði verið reynt í Kötlu jarðvangi en í þeirri miklu uppbyggingu sem hafi átt sér stað í ferðamennsku á svæðinu undanfarin ár hefði reynst erfitt að fá fólk til þess, en í evrópsku verkefni Háskólafélags Suðurlands 2015-2016 hefðu um 25 einstaklingar í Kötlu jarðvangi farið í um 40 ferðir til jarðvanga í Króatíu, Portúgal og Póllandi, og hefði verið mikil ánægja með þær ferðir.
Daniel tók fram að evrópska jarðvangsráðstefnan á Reykjanesi í október 2024 hefði aukið skilning á starfsemi jarðvanganna í nærumhverfinu og erlendu samstarfi þeirra. Á næsta ári væri fyrirhuguð vitundarkönnun á Reykjanesi um jarðvanginn og yrði hún síðan endurtekin.
Rene lýsti ánægju með ráðstenfnuna.
4. Málþing/ráðstefna á Hvolsvelli í apríl 2026, m.a. í tilefni 10 ára afmæli staðarskrárinnar UNESCO Global Geoparks og 15 ára afmælis Kötlu jarðvangs
Sigurður greindi frá þessum áformum. Jarðvangarnir hafa verið í sambandi við nýja Náttúruverndarstofnun um málið, en höfuðstöðvar hennar eru á Hvolsvelli í Kötlu jarðvangi, og er áhugi hjá henni að standa að ráðstefnunni með jarðvöngunum. Lovísa tók fram að Náttúrufræðistofnun mundi væntanlega vera reiðubúin til að standa einnig að ráðstefnunni. Sigurður leitaði eftir hugmyndum um efnistök á rástefnunni og hver ætti að vera markhópur hennar. Fjölmargar hugmyndir komu fram, m.a. um samstarf ríkis og sveitarfélaga í þágu náttúruverndar og samfélags. Ábendingar komu fram um aðkomu náttúruverndarsamtaka (Landverndar) og að minjavernd yrði einnig á dagskránni (Minjastofnun). Ákveðið að vinnuhópur tæki til starfa í upphafi nýs árs með fulltrúum frá þeim sem að ráðstefnunni standa. Sigurði falið að hafa forgöngu um málið.
4. Önnur mál
Lovísa greindi frá því að í vor muni hún láta af störfum hjá Náttúrufræðistofnun. Nína Aradóttir mun taka við hennar starfi og þar með umjón með jarðminjavernd hjá Náttúrufræðistofnun.
Sigurður ítrekaði það sem hann hafði kynnt nefndinni í tölvupósti daginn áður, þ.e. að hann hygðist láta af störfum sem formaður nefndarinnar. Lovísa veitti nefndinni forstöðu 2015-2020 en þá tók hann við formennskunni. Enginn bauð sig fram til formennsku á fundinum og bað Sigurður þá nefndarmenn að koma sér saman um arftaka sinn fyrir næsta fund í nefndinni, en hann mun væntanlega verða haldinn í aðdraganda fyrrgreinds málþings í apríl.
Fleira ekki, fundi slitið kl. 11:10.



Comments