Fundur í Íslandsnefndinni 18.12.2024
- sigurdur5
- 5 days ago
- 3 min read

Fundur 18.12. 2024
Fundur á Teams í Íslandsnefnd hnattrænna jarðvanga 18. desember 2024
Mætt eru:
Áslaug Dóra Erlendsdóttir Íslenska UNESCO nefndin
Dagný Arnarsdóttir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti
Daníel Einarsson Reykjanes jarðvangi
Fanney Ásgeirsdóttir Vatnajökulsþjóðgarði
Jóhannes M. Jóhannesson Kötlu jarðvangi
Rannveig Ólafsdóttir Félagi landfræðinga/Ferðamálafræði HÍ
René Biasone Umhverfisstofnun
Sigurður Sigursveinsson Háskólafélagi Suðurlands
Uggi Ævarsson Minjastofnun
Forföll hjá Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Jarðfræðifélaginu, Landvernd, Náttúrufræðistofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samstarfsnefnd opinberu háskólanna og Þingvallaþjóðgarði.
Sigurður formaður setti fund kl. 14:15 og bauð fundarmenn velkomna en síðan var gengið til boðaðrar dagskrár sem send hafði verið með tölvupósti 28. nóvember:
1. Evrópska jarðvangsráðstefnan á Reykjanesi 2. – 4. október 2024
Daníel greindi frá því að ráðstefnan hefði tekist mjög vel og hefði verið haft á orði að settur hefði verið nýr standard fyrir þessar ráðstefnur. Um 400 manns frá um 30 löndum sóttu ráðstefnuna og um 260 erindi/veggspjöld voru á dagskránni. Veðrið lék við þátttakendur, ekki síst á lokadeginum sem var varið í vettvangsferðir á Reykjanesi. Reykjanes jarðvangur hafði sett sér það markmið með að halda ráðstefnuna að kynna jarðvanginn betur í héraðinu, og á landsvísu, og þótti það hafa tekist vel, en um 60 fyrirtækjum og einstaklingum var þakkað sérstaklega í fjölmiðli svæðisins að lokinni ráðstefnunni. Þá vakti mikla athygli ráðstefnugesta þegar Lilja Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála og málefna UNESCO tilkynnti um 10 mkr fjárstyrk til hvors íslensku jarðvanganna til tveggja ára. Fanney og René sóttu ráðstefnuna og tóku þau undir orð Daníels um að hún hefði tekist einstaklega vel, og Áslaug Dóra óskaði Reykjanes jarðvangi til hamingju með vel heppnaða ráðstefnu. Dagana fyrir ráðstefnuna stóð Katla jarðvangur fyrir bæði dagsferð og tveggja daga ferð í Kötlu jarðvang og þóttu þær einnig hafa tekist mjög vel. Þá leiðsagði Jóhannes í einni vettvangsferðinni á Reykjanesi.
2. Tveggja ára styrkur menningar- og viðskiptaráðuneytisins til jarðvanganna
Sigurður og Daníel greindu frá fyrrgreindum styrkjum. Þeir eru almenns eðlis til að styrkja starf jarðvanganna, en framlagið kemur af málasviði 14 í fjárlögum, ferðaþjónustu. Báðir jarðvangarnir höfðu leitað eftir fjárstuðningi frá ríkinu, og Íslandsnefndin hefur einnig gert það. Þessi fjárstyrkur er jarðvöngunum mjög mikilvægur þar sem verkefni þeirra eru mjög fjölþætt en fjármögnun takmörkuð. Sigurður benti á mikilvægi þess að vinna að því á næsta ári að styrkir sem þessir yrðu festir varanlega í sessi.
3. Fréttir af starfi jarðvanganna
Jóhannes greindi frá undirbúningi að verkefni um vísindaferðamennsku, en það hefur hlotið styrk úr Byggðaáætlun. Ann Peters hefur verið ráðin til að vinna m.a. að því verkefni og verða því tveir starfsmenn í fullu starfi hjá Kötlu jarðvangi á næsta ári. Þá er verið að vinna að skýrslugerð í sambandi við reglubundna úttekt á Kötlu næsta sumar, en þær eru að jafnaði á fjögurra ára fresti.
Í máli Daníels kom fram að gríðarlega mikill tími og orka hefðu farið í ráðstefnuna nú í haust. Auk þess má nefna að vinna er hafin við að gera skólana á Suðurnesjum að UNESCO skólum. Ráðinn hefur verið starfsmaður í samstarfi ýmissa aðila til að vinna að fræðslumálum og skiptir það sköpum að hafa starfsmann sem getur helgað sig þeim málaflokki og samstarfsverkefnum á því sviði. Þá sagði Daníel frá einkar vel heppnaðri heimsókn Audrey Azoulay aðalframkvæmdastjóra UNESCO í jarðvanginn en hún var stödd hér á landi í tengslum við Hringborð norðurslóða.
4. Önnur mál
Sigurður greindi frá því að á fundi framkvæmdastjórnar UNESCO í vor yrðu 16 nýir hnattrænir UNESCO jarðvangar staðfestir og verður þá tala þeirra 229 í 50 löndum, en nú verða staðfestir fyrstu slíkir jarðvangar í Sádi-Arabíu og Norður-Kóreu. Á yfirstandandi ári fengu 33 jarðvangar endurnýjaða vottun til fjögurra ára (grænt spjald) en 6 fengu vottun til tveggja ára (gult spjald). Þá greindi hann frá því að í fyrstu viku mars verði vorfundur EGN haldinn í aðalstöðvum UNESCO í París en venjulega eru þeir haldnir í evrópskum jarðvangi. Er þetta í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá því að þessi staðarskrá UNESCO var samhljóða staðfest af aðildarlöndunum. Í dagskránni er gert ráð fyrir tækifæri jarðvanganna til að hitta fulltrúa viðkomandi aðildarlanda. Næsta International conference on UNESCO Global Geoparks verður haldin í annarri viku september 2025, og kom fram að áhugi er á Reykjanesi fyrir þátttöku í ráðstefnunni Conferencia Internacional sobre Geoparques Mundiales de la UNESCO 2025
René greindi frá því að frá og með næstu áramótum yrðu þau Fanney bæði starfsmenn nýrrar Náttúruverndarstofnunar. Á vettvangi Umhverfisstofnunar hefur verið mótuð stefna um aukna áhersla á fræðslu, en ekki einungis til ferðamanna heldur líka til almennings, m.a. með áherslu á lýðheilsu. Formaður lagði til að jarðvangarnir mundu sameiginlega vinna að slíkum áherslum með nýju stofnuninni, en ákveðið hefur verið að höfuðstöðar hennar verða á Hvolsvelli í Kötlu jarðvangi.
Fleira ekki, fundi slitið kl. 15:10.



Comments